sunnudagur, 8. júní 2014

Handboltaskóli ÍR

Minnum á handboltaskóla ÍR sem byrjar á þriðjudaginn! 

Tveggja vikna handboltanámskeið fyrir krakka fædd 2004-1997. Æfingar standa yfir í tvær klukkustundir dag hvern og fara fram í íþróttahúsinu við Austurberg.

Skólastjóri er Sigurjón Björnsson(Sjonni)! Sjonni er hokinn af reynsu, en hann er íþróttafræðingur að mennt og hefur þjálfað handbolta í 6 ár, allt frá 6. Flokki upp í 3. Flokk. Sjonni hefur spilað í meistaraflokki síðan 2006 og varð íslandmeistari með HK 2011 og bikar- og meistari meistarana með ÍR 2013. Sjonni er uppalinn ÍR-ingur og hefur alla sinn ferill leikið með ÍR utan tvö ár sem hann lék með HK. 

Takmarkaður fjöldi kemst að í hvort námskeið og því er mikilvægt að skrá sig sem fyrst.

Námskeiðsvikur:
10.-24. júní
5.-18. ágúst

Æfingatímar og aldursflokkar:
10-12 ára(02-04) kl. 09:00-11:00
13-14 ára(01-00) kl. 11:30-13:30
15-16 ára(99-97) kl. 13:30-15:30

Verð: 14.500 kr.
Skráning á www.ir.is

Nánari upplýsingar hjá starfsfólki ÍR í síma 587-7080

 

 

þriðjudagur, 11. mars 2014

AÐALFUNDUR HANDKNATTLEIKSDEILDAR ÍR

Aðalfundur handknattleiksdeildar ÍR verður haldinn miðvikudaginn 19. mars n.k.

 

Fundartími: miðvikudaginn 19. mars 2013 kl. 19:30

Staður: ÍR heimilið í mjódd, 2. hæð

Dagskrá:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins.
3. Lesnir og skýrðir rekstrar- og efnahagsreikningar fyrir síðasta almanaksár.
4. Lögð fram starfs- og fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár.
5. Kosinn formaður.
6. Kosnir aðrir stjórnarmenn og tveir stjórnarmenn til vara.
7. Kosnir fulltrúar og varafulltrúar á aðalfund félagsins.
8. Ákveðin æfingagjöld.
9. Önnur mál.

 

Við hvetjum allt áhugafólk um ÍR-handbolta að mæta og kynnast starfinu betur. Framboð hafa borist í allar stöður stjórnar en við hvetjum fólk til að íhuga að koma og taka þátt.

Kveðja Stjórnin

 

fimmtudagur, 27. febrúar 2014

Bikarhelgin - Pistill úr klefanum frá Bjarka Sig.

Sælir kæru ÍR-ingar - velkomin í  bikarhelgina okkar.

Við áttum stórkostlega "Final Four" bikarhelgi á síðasta ári þegar við lönduðum bikarnum. Þá var Höllin máluð blá að okkar hætti og stuðningurinn var frábær á báðum leikjum okkar enda slógum við aðsóknarmetið þá helgi.  

Nú ætlum við að endurtaka leikinn frá því í fyrra og taka þessa bikarhelgi með trompi,  því með ykkar stuðningi í stúkunni er fátt sem stöðvar okkur ÍR-inga.      

Við mætum mjög góðu liði Aftureldingar í undanúrslitunum á föstudeginum  28. Feb. kl. 17:15.    Afturelding hefur ekki tapað leik á þessu tímabili og eru strákarnir þar búnir að  slá út tvö  úrvalsdeildarlið á leið sinni í Final Four.     Þeir eru því sýnd veiði en ekki gefin,  enda er mjög  mikilvægt að fjölmenna á leikinn í ÍR-litunum og styðja okkur strákana í að komast í gegnum hann og  alla leið í úrslitaleikinn, sem verður síðan á laugardaginn kl. 16:00 gegn FH eða Haukum.

Undirbúningur hefur gengið vel í okkar herbúðum  og höfum við farið vel yfir það á video fundum hvernig andstæðingar okkar spila.     Okkar plan liggur því  ljóst fyrir enda eru leikmenn og skipulagið klárt.   

Strákarnir okkar mæta því fullir sjálfstrausts og tilhlökkunar í þessi verkefni sem býða okkar núna um helgina, og með ykkar stuðning og stemningu förum við alla leið og höldum bikarnum okkar í Breiðholti þar sem hann á heima.

Það er síðan okkar von að ÍR Handbolti  landi tveimur bikarmeisturum þessa helgi því Elli Ísfeld og strákarnir í 4.fl. ka.E hafa einnig tryggt sig inn í úrslitaleikinn í bikarnum og spila þeir við ÍBV kl. 14:30 á sunnudeginum í Höllinni.
Við óskum þeim góðs gengis og vitum að ÍR-ingar fjölmenna til að styðja þá líka. 

Sjáumst í Höllinni  
Áfram ÍR !!

Kv.
Bjarki Sig.

Bikarúrsliti - 4.fl. ka E. ÍR - ÍBV |sun. 2. mar. kl. 14:30 | Coca Cola bikar Laugardalshöll

Þetta er ekki aðeins stór helgi sem er framundan fyrir meistaraflokk karla í bikarnum, því strákarnir í 4.fl. karla eldra eru einnig búinn að tryggja sig inn í Höllina í úrslitaleikinn í bikarnum á sunnudeginum.

Leikur þeirra við ÍBV hefst kl. 14:30  í Laugardalshöll en þar verður umgjörðin glæsileg og engu til sparað.
Það er alltaf draumur hvers leikmanns að komast í höllina og leika bikarúrslitaleik og þessir leikir eru þeir leikir sem allir yngri leikmenn vilja prufa að leika áður en þeir fara á stórasviðið með meistaraflokkunum

Ókeypis er á alla leiki á sunnudeginum og hvetjum við því alla ÍR-inga til að mæta í Höllina og hvetja strákana okkar áfram og styðja þannig við bakið þessum glæsilegu fulltrúum sem við eigum í úrslitaleik Coka Cola bikarsins !


Flottir fulltrúar ÍR Handbolta 

Ókeypis er á alla leiki á sunnudeginum og hvetjum við því
alla ÍR-inga til að mætaí Höllina og styðja strákana

fimmtudagur, 24. október 2013

Pistill úr klefanum hjá Mfl. ÍR Handbolta

Góðir ÍR ingar.

Þegar leikmenn gengu til búningsherbergja eftir leik á móti Haukum í sl. viku er óhætt að segja að það hafi verið þrungið andrúsmloft í klefanum að Ásvöllum.  

Við sköfum ekkert af því að við vorum virkilega vonsviknir yfir því að tapa niður unnum leik.
Við eigum að vita að það er ekki nóg að vera yfir nær allan tímann og ætla sér síðan að spila síðan síðustu  mínúturnar til þess eins að  halda fengnum hlut.  

Það má ekki hika, heldur verður að spila á fullu gasi og  klára leikinn eins og hann hófst,  því sportið er grimmt og andstæðingarnir eru fljótir að refsa þegar mistök verða.    Ef við gerum þennan leik upp í einni setningu yrði hún einfaldlega -  "Hrikaleg vonbrigði"

En nú styttist í næsta leik sem er á móti FH á heimavelli í kvöld kl. 20:00
Leikmenn koma vel undan helginni og eru staðráðnir í að bæta fyrir tapið á móti Haukum , enda á  EKKERT lið  að geta komið í Austurberg og talið sig geta tekið stigin sem í boði eru þar því þetta er okkar heimavöllur.

Dagsskipunin liðsins er einföld og á þá leið að við ætlum okkur SIGUR og komast þannig aftur á toppinn í deildinni.

Til þess að það gangi eftir þá þurfum við einnig ykkar hjálp í stúkunni kæru ÍR-stuðningsmenn.

Þið hafið oft hjálpað okkur yfir erfiða hjalla og vonumst við leikmenn til þess að þið fjölmennið í kvöld til að sjá um stemninguna í stúkunni með trommuslætti og látum og verðið þannig okkar 8 maður inni á vellinum eins og ávalt.

Þið eruð styrkurinn, umgjörðin og ástæðan fyrir því að við fáum komment eins og þessi frá öðrum liðum í sjónvarps og blaðaviðtölum fyrir og eftir leiki.

 "Síðan er alltaf gaman að leika í íþróttahúsinu í Austurbergi þar sem ævinlega eru margir áhorfendur og stemningin virkilega góð«

Þarf að segja meira ?

Sjáumst spræk og eigum góðan dag í Berginu á eftir.

Kveðja
Leikmenn Mfl.  ÍR Handbolta


föstudagur, 4. október 2013

Enginn akstur 4 okt.

1.10.2013

Enginn akstur föstudaginn 4.okt.

4.okt. er starfsdagur á frístundaheimilum í Breiðholti og verða þau öll lokuð. Breiðholtsstrætó mun að þeim sökum ekki ganga þann daginn og frístundaheimilið í Undirheimum í Austurbergi verður einnig lokað.